Þeir sem oftast drekka sig ölvaða gera minna úr áhættunni af því en þeir sem drekka sig sjaldan ölvaða

Í nýjasta Talnabrunni, Fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, þar sem fjallað er um áfengis- og tóbaksnotkun Íslendinga 2018, kemur fram að sterk fylgni virðist vera milli mats á áhættu og tíðni ölvunardrykkju. Þannig mátu rúmlega 42% þeirra sem drukku sig ölvaða að jafnaði einu sinni í viku eða oftar áhættuna af eigin hegðun litla eða enga. Til samanburðar mátu lang flestir, eða 90% þeirra sem drukku sig ölvaða sjaldnar en mánaðarlega síðastliðna 12 mánuði, áhættuna miðlungs eða mikla.

Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að fram kemur að tæplega 42% karla segjast að jafnaði drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar (þ.e. segjast hafa drukkið fimm eða fleiri áfenga drykki á einum degi síðastliðna 12 mánuði). Hlutfallið var 40% árið 2017. Talsvert færri konur sögðust hins vegar verða ölvaðar einu sinni í mánuði eða oftar árið 2018, eða um 19%, og hefur hlutfallið lækkað um u.þ.b. þrjú prósentustig frá fyrra ári. Ef þetta hlutfall er heimfært upp á þjóðina alla má gera ráð fyrir því að minnsta kosti 55 þúsund karlmenn og 24 þúsund konur, 18 ára og eldri, hafi drukkið sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar á síðastliðnu ári.

Vitneskja um hvort ástæðan fyrir því að þeir sem drekka sig oft ölvaða hafi síður þekkingu á áhættu ölvunardrykkju en þeir sem drekka sig sjaldnar ölvaða, eða að þeir telji sér trú um að ölvunardrykkja sé skaðlítil eða skaðlaus liggur ekki fyrir.

Heimild: Talnabrunnur, Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. 13. árgangur. 1. Tölublað, janúar 2019.

Undanfarin ár hefur Embætti landlæknis vaktað nokkra áhrifaþætti heilbrigðis. Markmiðið er að fylgjast með heilsuhegðun og líðan Íslendinga og þróun tiltekinna áhrifaþátta, svo sem líðan, notkun áfengis og tóbaks, hreyfingu, mataræði, tannheilsu og ofbeldi. Gallup framkvæmir könnunina fyrir Embætti landlæknis og var könnunin lögð fyrir mánaðarlega út árið 2018. Úrtakið var 8.383 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem valdir voru af handahófi úr viðhorfahópi Gallup og úr þjóðskrá. Þátttökuhlutfall að þessu sinni var 53,4%.

Við værum þakklát ef þú deilir þessarri frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar