Börn líta áfengisneyslu öðrum augum en fullorðnir
Á vefsíðu verkefnisins Allsgáð sem FRÆ, Fræðsla og forvarnir stendur að eru ábendingar til foreldra og forráðamanna um umgengni við áfengi um jól og áramót.
Markmiðið með þessum ábendingum er að minna á að börn líta áfengisneyslu öðrum augum en fullorðnir. Hátíðarhöld í tilefni jóla og áramóta eru börnum sem búa við mikla áfengisneyslu foreldra oft sérstaklega erfið og sársaukafull. Því miður kvíðir hópur íslenskra barna jólum og áramótum vegna þessa og kemur í veg fyrir að þau njóti tilhlökkunarinnar og eftirvæntingarinnar sem eru svo stór hluti hátíðanna. Öruggasta leiðin til að búa börnum gleðileg jól og hátíðir er að þau finni til öryggis.
IOGT á Íslandi stendur einnig fyrir svipuðu verkefni sem kallast Hvít jól. Verkefnið er þróað af IOGT hreyfingunni í Svíþjóð og Finnlandi en hefur náð fótfestu í fleiri löndum. Markmið þess er einkum að vekja athygli á spurningunni hvers vegna fullorðnir leggja svo mikið upp úr notkun áfengis á hátíð sem að öðru leyti miðast fyrst og fremst við börn. Bent er á að mörg börn bera kvíðboga fyrir rauðum dögum almanaksins, þar sem foreldrar nota oft frídaga til áfengisneyslu. Af þessu er heiti verkefnisins, Hvít jól, dregið.
Þótt áfengi sé stór hluti af lífi og samskiptum Íslendinga þá á það samt ekki við um alla. Áfengi er ekki sjálfsagður hluti hátíðarstemmingar heldur val hvers og eins. Fyrir nokkru ræddi Fréttablaðið við nokkra einstaklinga sem annað hvort hafa aldrei smakkað áfengi eða ákveðið á einhverjum tímapunkti að hætta að drekka og endurspeglar þetta mjög vel. Sjá greinina á visir.is hér