Áfengisfrumvarp
Enn eykst andstaða landsmanna við áfengisfrumvarpið.
Vandséð að flutningsmenn gangi erinda almennings eða samfélags.
Niðurstaða nýrrar könnunar Rúnars Vilhjálmssonar, félagsfræðiprófessors við Háskóla Íslands er að nærri sjö af hverjum tíu Íslendingum eru mótfallnir frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum.
Fram kemur að 69,2 prósent landsmanna eru andvíg því að frumvarpið verði að lögum en 30,8 prósent eru því fylgjandi. Spurt var: Hver er afstaða þín til frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi um að heimila sölu á áfengi í verslunum?
Í samantekt um niðurstöðurnar segir:
Mikill meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpi um sölu áfengis í almennum verslunum. Í nánast öllum samfélagshópum er meirihluti andvígur frumvarpinu. Framangreindar niðurstöður eru í megin atriðum svipaðar fyrri könnunum um þetta efni hérlendis á undanförnum árum.
- Þess má geta að allir helstu fagaðilar og stofnanir á þessu sviði hérlendis hafa lagst einarðlega gegn frumvarpinu í ljósi fjölmargra erlendra rannsókna um áhrif af almennri sölu áfengis á aukna áfengisneyslu og áfengistengd vandamál. Alþjóðlegar stofnanir á heilbrigðissviði sem um málið hafa fjallað hafa einnig eindregið hvatt til takmarkana á sölufyrirkomulagi áfengis.
- Það vekur því nokkra furðu að tíma Alþingis sé varið í umfjöllun um mál af þessu tagi þing eftir þing. Vandséð er að flutningsmenn gangi erinda almennings eða samfélags í málarekstri sínum.
Sjá má nánari upplýsingar um könnuna hér.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.