,,Við hljótum að hafa gert eitthvað rétt“

Á árlegri ráðstefnu NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network), sem haldin var í Osló dagana 14. – 16. október, var fjallað um þróunina í ávana- og vímuefnamálum ungmenna í Evrópu. Í yfirskrift ráðstefnunnar, Við hljótum að hafa gert eitthvað rétt, er vísað til þess að þróunin hefur almennt verið á réttri leið í löndum Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndunum.

Í fyrirlestrum og vinnuhópum var leitað skýringa á þessari þróun. Niðurstaðan var að þeirra væri líklega að leita í samspili fjölmargra þátta, eins og fram kemur í samantekt frá ráðstefnunni hér á eftir.

Ráðstefnan var vel sótt og miklar umræður, bæði í tengslum við inngangsfyrirlestra og í vinnuhópum, en fyrirkomulag hennar var skipulagt með það í huga að virkja þátttakendur sem best.

  1. Helstu niðurstöður ráðstefnunnar eru dregnar saman í eftirfarandi þætti:
    Víðtækar nýjar kannanir á meðal ungs fólks í ríkjum Evrópu (svo sem ESPAD og HBSCS) sýna minnkandi áfengisneyslu meðal ungs fólks.
  2. Ýmsar skýringar kunna að vera á þessari þróun og rannsakendur eru ekki á einu máli um hvað liggur að baki. Gera má ráð fyrir að að þarna sé um að ræða samverkandi áhrif ýmissa þátta. Ýmiss konar viðleitni einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi til þess að hafa stjórn á áfengisneyslu er ein af líklegum skýringum.
  3. Meðal annarra þátta sem kunna að skýra þessa jákvæðu þróun eru aukinn áhugi á heilbrigðum lífsháttum meðal ungs fólks, stöðug aukning á framboði á áfengislausu frístundastarfi og afþreyingu, áhugi ungs fólks á því standa sig og ná árangri, takmarkanir á aðgengi ungs fólks að áfengi, aukinn fjöldi ungmenna með múslimskan bakgrunn, áhrif efnahagskreppunnar og aukin vitund ungs fólks, foreldra þeirra og fólks almennt um áhættu sem fylgir áfengisneyslu.
  4. Þrátt fyrir þessa almennu, jákvæðu þróun vaxa áhyggjur af miklum fjölda (í mörgum ríkjum eru vísbendingar um að hann sé að aukast) ungs fólks sem kemur á neyðarmóttökur sjúkrahúsa vegna bráðrar áfengiseitrunar vegna ölvunar og vegna ofbeldis og slysa sem rekja má til áfengisneyslu.
  5. Þrátt fyrir að almennt hafi miðað í rétta átt er félagsleg og efnahagsleg mismunum enn til staðar og fyrir suma áhættuhópa (t.d. atvinnulaus ungmenni og ungt fólk sem hverfur frá námi, börn sem alast upp í fjölskyldum með áfengisvanda eða í annars konar áhættuumhverfi) er áfengi áfram ógnun við þroska þeirra, heilsu og velferð.
  6. Aukin markaðssetning áfengis á internetinu, sem nær sérstakleg vel til ungs fólks, veldur einnig áhyggjum. Enn sem komið er hefur einungis Finnland gripið til aðgerða í formi lagasetningar til þess að hafa stjórn á þessari markaðssetningu. Annað áhyggjuefni í þessu sambandi er aukin áhersla áfengisiðnaðarins á að ná til kvenna, sérstaklega ungra kvenna, sem nýjar rannsóknir sýna að drekka núorðið álíka mikið og ungir karlar.
  7. Minnkandi áfengisneysla ungs fólks er mikilvæg í ljósi nýlegra rannsóknaniðurstaðna um þroska heilastarfsemi og hvata sem hafa áhrif á atferli hjá ungu fólki og gefa vísbendingu um að neysla áfengis sé ungu fólki skaðlegri en fullorðnum.
  8. Stokkhólmsyfirlýsingin sem staðfest var í lok ráðherraráðstefnu WHO árið 2001 er ennþá mikilvægur vegvísir í stefnumörkun og framkvæmd, hvort heldur er innan Evrópu, einstakra ríkja eða sveitarfélaga. Það á sérstaklega við um þá afstöðu að ,,lýðheilsustefnu varðandi áfengi þurfi að móta á grundvelli almannahagsmuna án afskipta viðskiptahagsmuna“ sem halda þarf til streitu gagnvart gríðarlegri fjárfestingu áfengisiðnaðarins í því skyni að koma sér að við mótun áfengisstefnu.
  9. Einnig má benda á stefnumörkun og tillögur að framkvæmd innan ríkja og sveitarfélaga sem lögð er til í WHO’s Global Strategy to Reduce Harmful Use of Alcohol og staðfest var á þingi WHO árið 2010. Þar eru skýrar hugmyndir um hvernig stjórnvöld og félagasamtök geta tekið með markvissum og árangursríkum hætti á áfengistengdum vanda.
  10. Til þess að hnika þróuninni í rétta átt þarf sterka alþjóðlega ramma eins og ofangreindar samþykktir WHO og þá sem settir eru fram í UN Sustainable Development Goals. Styðja þarf kröftuglega öll skref sem miða að því að styrkja alþjóðaramma WHO, t.d. gagnvart tóbaki eins og gert er í FCTC.
  11. Efla þarf snemmtæka greiningu og skammtímainngrip innan heilbrigðis- og velferðargeirans og þörf er á meira samstarfi heilbrigðis- og velferðargeirans og dómskerfisins.
  12. Í mörgum samfélögum er mögulegt að vinna gegn áfengistengdum vanda með því að leggja meiri rækt við ungt fólk, bæta líðan þeirra og auka tilboð á tómstundastarfi; almennt að leggja meira í heilbrigðan þroska þeirra.
  13. Til þess að sporna almennt gegn áfengistengdum vanda er mikilvægt að byggja upp það almenna viðhorf að það að neyta ekki áfengis sé eftirsóknarverur ,,merkimiði“.

Niðurstöðurnar voru unnar  af Cees Goos í samstarfi við stjórn NordAN. Þýtt og staðfært af Árna Einarssyni.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.