Krabbamein

Bættur lífsstíll gæti komið í veg fyrir helming krabbameinstilfella

Í grein sem segir frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar og birtist í tímaritinu JAMA Oncology í maí er því haldið fram að koma mætti í veg fyrir allt að helming dauðsfalla vegna krabbameina í Bandaríkjunum ef landsmenn hættu öllum reykingum, drægju úr áfengisneyslu, héldu líkamsþyngd í skefjum og hreyfðu sig í það minnsta í 150 mínútur í hverri viku og fækka mætti nýgengi krabbameinstilfella um 40-70%.

Gagnsemi heilbrigðra lífshátta er, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, nokkuð mismunandi eftir krabbameinum og einnig kom fram kynjamunur. Konur gætu til dæmis dregið úr áhættu vegna lungakrabba um 85% og áhættu vegna krabbameina í ristli og endaþarmi um 85%. Fyrir karla voru samsvarandi tölur 90% og 50%.

Af öðrum tegundum krabbameina var niðurstaðan sú að konur gætu með þessu einnig dregið úr hættu á krabbameini í brisi um 53%, krabbameini í legslímhúð um 37%, krabbameini í eggjastokkum um 34% og brjóstakrabbameins um 15%.

Ávinningurinn fyrir karla gæti verið 62% minni áhætta á krabbameini í þvagblöðru, 40% minni áhætta á krabbameini í blöðurhálskirtli og 36% minni áhætta á krabbameini í nýrum.

Þótt varað sé við of miklum alhæfingum í greininni eru þessar niðurstöður samt skýr og afdráttarlaus ábending um að leggja þurfi mikla áherslu á að berjast gegn krabbameinum með því að efla heilsusamlegan lífsstíl. Sú barátta geti ekki einskorðast við þróun lyfja og meðferðar. Forvarnir þurfa að vera í öndvegi.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.