Frumvarp

Frumvarp um að heimila meiri áfengiskaup í Fríhöfninni

Í frumvarpi sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi 4. apríl síðastliðinn er gert ráð fyrir að ferðamenn sem fara um Keflavíkurflugvöll geti keypt meira magn áfengis en nú er leyfilegt. Verði frumvarpið samþykkt rýmkar kvótinn fyrir bjór og léttvín talsvert frá því sem nú er.

Samkvæmt  frumvarpinu verður það magn sem leyfilegt verður að kaupa í Fríhöfninni miðað við umreiknaðar einingar í stað fyrirfram ákveðinnar samsetningar mismunandi áfengisflokka, eins og nú er. Það þýðir að farþegar geta blandað saman áfengisflokkkum eins og þeir vilja innan þessa einingakerfis.

Í þessu nýja kerfi telst 1 eining vera; 3 lítrar af bjór, ein 0,75 cl léttvínsflaska eða 0,25 cl af sterku áfengi (meira en 22%). Hálfs lítra kippa af bjór verður þá ein eining og flaska með einum lítra af sterku áfengi er þá fjórar einingar. Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að miða magn af léttvíni við hefðbundnar vínflöskur sem eru 0,75 cl en ekki 1 lítri líkt og gert er í dag.

Sá sem í dag fullnýtir tollinn sinn til að kaupa bjór mun eftir breytingar geta keypt 6 stórar kippur í stað fjögurra, eða 18 lítra í stað 12. Farþegi sem vill aðeins léttvín getur á sama tíma keypt sex flöskur í stað þess að taka fjórar slíkar og svo bjórkippur til að nýta alla heimildina. Hins vegar þurfa þeir sem kaupa einn lítra af sterku að sætta sig við minna af bjór og víni en geta aftur á móti sleppt léttari tegundum og keypt 1,5 lítra af sterku í staðinn. Mörkin fyrir skipverja munu liggja í 11 einingum skv. frumvarpinu á meðan flugáhafnir mega taka með sér 5 einingar.

Frumvarpið er núna hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og frestur til að skila inn umsögnum um það rennur út 29. apríl.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.