Áfengisfrumvarpið
Bætir aukið aðgengi að áfengi samfélagið? Áfengi í verslanir?
Háskóli Íslands (Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS ) og IOGT á Íslandi boðuðu til málþings 13. apríl síðastliðinn í samvinnu við Krabbameinsfélagið, Fræðslu og forvarnir og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. Málþingið var haldið í Háskóla Íslands við Stakkahlíð, var ókeypis og öllum opið. Tilefni málþingsins var áfengisfrumvarpið svokallaða sem nú liggur fyrir Alþingi.
Fyrirlesarar voru: Árni Guðmundsson, uppeldis- og menntunarfræðingur og aðjúnkt við tómstunda- og félagsmálabraut Háskóla Íslands. Per Leimar, framkvæmdastjóri áfengisstefnumörkunar hjá samtökunum IOGT-NTO í Svíþjóð, starfaði áður m.a. fyrir Systembolaget í Svíþjóð. Lára G Sigurðardóttir, læknir, doktor í lýðheilsuvísindum og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins.
Í erindi sínu fór Árni Guðmundsson yfir áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi og gerði greinargerðina með því einkum að umtalsefni og taldi ýmislegt athugavert við hana. Í henni væri t.d. lítið gert úr skaðsemi áfengis og þeirri þekkingu sem fyrir liggur á tengslum aðgengis og neyslu. Þessi tengsl væru þó vel þekkt og þyrfti í raun ekki að rökræða frekar. Árni fór einnig yfir góðan árangur Foreldrafélags gegn áfengisauglýsingum í því að sporna gegn ólöglegum áfengisauglýsingum og sagði frá niðurstöðu Fjölmiðlanefndar sem úrskurðaði nýlega að með birtingu auglýsinga fyrir Egils Gull hefði Ríkisútvarpið brotið gegn ákvæðum laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi og er gert að greiða 250.000 króna stjórnvaldssekt vegna brotsins. Hvatti Árni til þess að áfram yrði haldið tilkynna brot gegn banni við áfengisaulýsingum. Það væri ljóst að dropinn holaði steininn.
Per Leimar fór yfir tjónið vegna áfengisneyslu á heimsvísu og bar það saman við gögn frá Íslandi. Ísland kemur vel út í þeim samanburði og rakti Per það m.a. til þess hve lítil heildarneysla áfengis væri. Sagði hann að það mætti m.a. rekja til þess að hornsteinar íslensku áfengisstefnunnar hefðu allir að markmiði að halda heildarneyslunni niðri, s.s. ríkiseinkasala í smásölu áfengis, hátt áfengisverð, há aldursmörk til áfengiskaupa og bann við markaðssetningu og auglýsingum á áfengi.
Per rakti einnig að aukin áhersla væri nú lögð á neikvæð áhrif áfengisneyslu á aðra en neytandann sjálfan. Umræðan um áfengismálastefnuna nú beindist í auknum mæli að því hvernig vernda mætti samfélagið fyrir þessu. Hver og einn hefði rétt yfir eigin lífi og ákvörðunum en hann mætti ekki ganga á rétt annarra til þess sama. Það ætti t.d. við ónæði og ofbeldi af hálfu ölvaðs fólks, tjón vegna ölvunaraksturs og skaðleg áhrif áfengis á fóstur. Kostnaður samfélagsins vegna áfengisneyslu væri umtalsverður, ekki aðeins vegna heilbrigðismála, heldur einnig vegna félagsþjónustu og löggæslu.
Lára Sigurðardóttir fór einnig yfir alþjóðlega sjúkdómabyrði vegna áfengisneyslu en ræddi sérstaklega um áfengi sem krabbameinsvaldandi efni. Nefndi hún ýmis dæmi um tengsl áfengis og ýmissa krabbameina og hvernig áhættan eykst í takt við aukna neyslu. Sagði hún það þess vegna sérkennilegt að alþingismenn ræddu í alvöru um að heimila aukna dreifingu og útbreiðslu á áfengi. Nefndi hún sem dæmi að blár Opal hefði verið tekinn úr sölu og dreifingu vegna þess að í honum hefðu fundist krabbameinsvaldandi efni. Áfengið væri hins einhverra hluta vegna minna áhyggjuefni i hugum margra.
Láta sagði nauðsynlegt að efla vitund almennings um almenn heilsufarsleg áhrif áfengis. Sagði hún frá könnun Krabbameinsfélags Reykjavíkur sem gerð var fyrir nokkrum árum þar sem fram kemur að áfengi er ekki meðal þeirra þátta sem Íslendingar hafa mestar áhyggjur af hvað heilsuna varðar. Taldi hún mikilvægt að auka almenna þekkingu fólks á áhrifum áfengis og árvekni þess gagnvart áfengisneyslu.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.