Áfengisfrumvarpið
,,Núverandi áfengisstefna á Íslandi er góð viðleitni til að virða í senn einstaklingsfrelsi og lýðheilsusjónarmið“
Róbert H Haraldsson NEH-prófessor við Colgate háskólann í New York skrifaði nýlega grein í Fréttablaðið um áfengisfrumvarpið svokallaða sem nú er rætt á Alþingi. Í greininni segir hann þá sem vilja sjá áfengi af öllum styrkleikaflokkum í matvöruverslunum sem víðast stundum tala eins og það sé brýnt samfélagslegt verkefni að tryggja að allir hafi sem allra greiðastan aðgang að áfengi á flestum tímum sólarhrings.
Áfengi er ekki grunngæði af því tagi sem enginn á að þurfa að fara á mis við, segir Róbert í grein sinni. ,,Áfengi er ávanabindandi og skaðleg munaðarvara sem stjórnvöld hafa ríka ástæðu til að takmarka aðgang að svo lengi sem þau virða frelsi fullveðja einstaklinga til að móta sinn eigin lífsstíl. Núverandi áfengisstefna á Íslandi er góð viðleitni til að virða í senn einstaklingsfrelsi og lýðheilsusjónarmið.“
Róbert veltir því fyrir sér hvernig það geti gerst að jafnvel skynsamt fólk tali um áfengi eins og einhver grunngæði er tryggja beri öllum greiðan aðgang að á öllum tímum. Nefnir hann tvær mögulegar skýringar á því: ,,Önnur er sú að verslun er að verða stærri og veigameiri þáttur af lífi okkar og hún yfirgnæfir nú fleiri og fleiri svið mannlífsins. Fulltrúar verslunarinnar vilja vitaskuld að neytandinn hafi aðgang að öllum vörum, allan sólarhringinn, og í þeim efnum eru þeir ekki gefnir fyrir fínar aðgreiningar. Það eru miklir verslunarhagsmunir fólgnir í því að telja fólki trú um að áfengi sé ósköp venjuleg neysluvara.
Hin ástæðan, sem mér sýnist ekki síður veigamikil, tengist orðinu „vínmenning“. Með því að tala um vínmenningu í staðinn fyrir t.d. drykkjuskap, og með því að gefa sér að vínmenning batni með bættu aðgengi, er auðvelt að læða að fólki þeirri firru að samfélaginu beri að tryggja öllum sem bestan aðgang að áfengi. Er ekki allt sem stuðlar að menningu gott?“
Sjá grein Róberts hér.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.