Heimilisofbeldi

Náum áttum – heimilisofbeldi

Næsti fundur Náum áttum fjallar um heimilisofbeldi.  Frummælendur verða þær Margrét Ólafsdóttir, aðjúnk við HÍ og Ingibjörg H Harðardóttir, lektor við HÍ, sem fjalla saman um „ofbeldi á heimilli“ og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu sem fjallar um „nýja nálgun lögreglu og félagsþjónustu“.

Úr erindi Öldu Hrannar:
Heimiliofbeldi – Breytt nálgun lögreglu og félagsþjónustu
Átak gegn heimilisofbeldi hófst á Suðurnesjum í febrúar 2013, fyrst sem tilraunaverkefni og að því loknu sem frambúðarverklag. Verkefnið var unnið í samvinnu við félagsmálayfirvöld á svæðinu. Aðdragandi verkefnisins var sá að það var upplifun lögreglu að fá heimilisofbeldismál fengu framgöngu innan réttarkerfisins, úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili voru ekki nýtt m.a. vegna þess að stuðning skorti fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur, ósamræmi í afgreiðslu mála og skráningu þrátt fyrir verklagsreglur og heimilisofbeldi var ekki litið nægilega alvarlegum augum í samfélaginu svo vitundavakningu þurfti til að stemma stigu við þeirri ógn og lýðheilsuvandamáli sem heimilisofbeldi er.
Markmiðið með verkefninu var að fyrstu viðbrögð lögreglu yrðu markvissari og rannsóknir vandaðari í því skyni að koma í veg fyrir ítrekuð brot, að fleiri mál sættu ákæru, að úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili væru betur nýtt og að aðstoð við þolendur og gerendur yrði betur nýtt.

Á haustmánuðum 2014 var ákveðið að innleiða svipuð verklag í samvinnu við Reykjavíkurborg sem lagði 50 milljónir króna til verkefnsins í formi bakvaktar hjá félagsþjónustu. Ekki var um að ræða að sérstakir fjármunir væru lagðir í verkefnið hjá embætti LRH þó það hafi fljótlega sýnt sig að verkefnið muni kosta töluverða fjármuni. Er því hjá embættinu forgangsraðað í þágu málaflokksins. Í desember sl. tóku gildi nýjar verklagsreglur RLS er snúa að vinnu lögreglu í þessum málaflokki.

Verkefnið hófst þann 12. janúar síðastliðinn og hefur það strax sýnt sig að þörfin er mikil enda hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað töluvert. Ekki er þó talið að meira sé um heimilisofbeldi en verið hefur, heldur eru málin betur skráð/unnin/yfirfarin hjá lögreglu, auk þess sem tilkynningum hefur fjölgað, hugsanlega vegna vitundarvakningar í samfélaginu. LRH á í viðræðum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að þar verði tekið upp samsvarandi verklag. Til mikils er að vinna fyrir gerendur, þolendur og börn á heimilinu með því að ná að grípa inn í aðstæður og hugsanlega stöðva heimilisofbeldi. Auk þess hefur verkefnið mikið forvarnagildi en Bretar hafa reiknað það út að fyrir hvert pund sem lagt er í verkefni af þessu tagi sparast önnur sex.

Úr erindi Margrétar og Ingibjargar
Ofbeldi á heimili
Líðan barna og væntingar þeirra til skólans.
Í erindinu verður greint frá rannsókn sem fram fór við Háskóla Íslands. Rannsóknin var þríþætt: Spurningalistakönnun var lögð fyrir skólabörn til að rannsaka almenna þekkingu og skilning þeirra á  ofbeldi á heimilum, þá voru tekin viðtöl við börn og  mæður sem búið hafa við slíkt ofbeldi  og loks var greind orðræða um heimisofbeldi í prentmiðlum.  Niðurstöður eru kynntar í bókinni  Ofbeldi á heimili. Með augum barna.
Niðurstöður gefa til kynna að skólabörn á Íslandi hafa leitt hugann að ofbeldi á heimili, þekkja til þess og leggja sinn skilning í ofbeldið sem fer ekki alltaf saman við hugmyndir fullorðinna.
Í viðtölunum kom fram að börnin höfðu upplifað margs konar ofbeldi sem beindist  bæði að þeim sjálfum og móður þeirra, stjórnsemi í daglegu lífi og tilraunum til að einangra fjölskyldumeðlimi. Eins og við var að búast leið börnunum afar illa meðan á ofbeldinu stóð og ofbeldið hélt áfram að þjaka sum þeirra eftir að ofbeldismaðurinn flutti af heimilinu. Börnin sögðu frá ýmsum leiðum til að takast á við ofbeldið og komu með ábendingar til fagfólks og stofnana um aðstoð við fjölskyldur sem búa við ofbeldi.
Börnin óska eftir að skólinn fræði um ofbeldi á heimili og hafa skoðun á hvernig þeirri fræðslu sé háttað. Þau vilja hjálp og að skólinn geti brugðist við ef barn býr við ofbeldi á heimili sínu.

Margrét Ólafsdóttir, margreto@hi.is
Ingibjörg H. Harðardóttir, ingihar@hi.is

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.