Kannabis

„Það er ekkert til í því að kannabisolía hafi lækningamátt við krabbameini“

Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði var í viðtali á Bylgjunni 23. febrúar en hann var gestur þáttarins ásamt Gunnari Bjarna Ragnarssyni, yfirlæknir og krabbameinslæknir á LSH. Þar ræddu þeir um mögulegan lækningamátt kannabis.

„Það er mjög einfalt að meta þetta, ef maður skoðar þær rannsóknir sem hafa verið birtar um áhrifamátt olíunnar. Þetta er einfaldlega ekki byggt á neinum rökum og það er geysilega alvarlegt þegar menn koma fram með svona stórar yfirlýsingar,“ segir Magnús Karl. Þar vitnar hann í orð Rick Simpson sem var gestur í þættinum Í bítið í síðustu viku. Þar talaði hann fyrir lækningamætti kannabisolíunnar og þá sérstaklega gegn krabbameini. Þá sagði hann að olía, sem hann framleiðir, hefði læknað þúsundir manna af krabbameini, liðagigt, flogaveiki, og margt annað.

Gríðarlega alvarlegt
„Þetta er í raun gríðarlega alvarlegt þegar maður kemur fram og segir að olía sem hann framleiðir lækni ekki bara öll krabbamein heldur einnig bara fjölmarga sjúkdóma, það er svo yfirgengilegt að maður á í raun ekki orð. Við getum bara afgreitt þennan mann sem mann sem getur ekki staðið við neitt sem hann segir.“

Magnús segir að vísindin viti það sem búið er að rannsaka.

„Við getum ekki vitað neitt annað. Þetta er ekkert voðalega flókið, út á það ganga svona hlutir. Við vitum hvaða hlutir virka, því það er búið að sýna fram á það. Það eru ekki til ein einustu gögn sem sýna fram á það að kannabisolía hafi nokkur áhrif á framgang krabbameina í sjúklingum.“

Þurfum gagnrýna hugsun
Rick nefndi að hann hefði læknað þúsundir manna af allskyns sjúkdómum. Heimir Karlson, þáttastjórnandi, spurði því þá félaga hvort möguleiki sé á því að þetta virki fyrst svona margir telja sig hafa læknast. Þá svaraði Magnús: „Finnst þér líklegt, Heimir, að ef þúsundir manna hefðu læknast af krabbameini og fjölmiðlar í Kanada, þar sem hann býr, hefðu ekki greint frá því? Ef við beitum bara örlítið gagnrýna hugsun þá blasir það bara við að þegar þúsundir manna læknast af krabbameini, þá er það stórfrétt.“

Magnús segir að ef einn sjúklingur læknast af krabbameini með nýju efni er ritað um það í læknatímariti. Ef tíu læknast af krabbameini með nýju efni er það stórfrétt og hvað þá þúsundir.

„Ég leyfi mér bara að spyrja, hvernig í ósköpunum á svona maður erindi í fjölmiðla?“

„Við erum að biðla til ykkur fjölmiðlamanna að hjálpa okkur að upplýsa fólk,“ segir Gunnar Bjarni.

Getur verið skaðlegur málflutningur
„Svona málflutningur getur verið skaðlegur og getur leitt til þess að fólk tekur inn lyf sem eru skaðleg, þessi lyf sem menn eru að taka framhjá kerfinu geta verið skaðleg. Þetta getur líka orðið til þess að fólk afþakkar hefðbundnar aðferðir, og deyr kannski fyrr en ella. Það eru alveg dæmi um það hér á landi og erlendis.“

Á síðasta ári fjallaði fréttaskýringaþátturinn Brestir um mögulegan lækningamátt kannabisolíu skapaðist töluverð umræða í kjölfarið af því.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.