Börn

Engar breytingar á ávana- og vímuefnaneyslu barna á grunnskólaaldri

Nýlega kom út skýrslan Ungt fólk 2014-grunnskólar sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í skýrslunni eru birtar niðurstöður úr rannsóknum Rannsókna & greiningar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi árið 2014 með samanburði við árin 2000, 2006, 2009 og 2012. Gagnasöfnun fór fram með spurningalistakönnun í febrúarmánuði 2014. Líkt og í fyrri rannsóknum er athyglinni beint að ýmsum þáttum í lífi unglinga sem varða hagi þeirra, s.s. menntun, menningu, félags, – íþrótta- og tómstundastarf, heilsu, líðan og vímuefnaneyslu. Rannsóknin sýnir að engin breyting hefur orðið meðal nemenda í 10. bekk sem hafa orðið ölvuð síðastliðna 30 daga. Neysla kannabisefna er áfram á niðurleið og daglegar reykingar standa að mestu í stað, eru um 3% í ár. Einnig kemur fram að hlutfall þeirra sem hafa notað annað hvort hass eða marijúana er nánast það sama og einungis þeir sem hafa notað marijúana, sem rennir stoðum undir að ekki er um tvo aðgreinda hópa að ræða, heldur einn og sama hópinn. Meðal stráka og stelpna í 10. bekk á landinu segjast um 4-5% hafa notað marijúana einu sinni eða oftar um ævina og um 5% stráka og stelpna á landinu, segjast hafa notað hass eða marijúana. Fáir nemendur í 8. bekk reykja daglega, hafa orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga eða notað kannabisefni einu sinni eða oftar um ævina, eða um 1% í hverjum flokki vímuefna. Í flestum tilfellum er neysla vart mælanleg í 8. bekk.

Í skýrslunni kemur fram að mikill árangur hefur náðst á Íslandi í forvarnarstarfi gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna undanfarin ár. Sem dæmi um það sögðust 42% unglinga í 10. bekk hafa orðið ölvuð einu sinni eða oftar sl. 30 daga árið 1998, en um 6% árið 2014. Þessi árangur skilar sér áfram inn á framhaldsskólastigið, en rannsóknir sýna að neysla fylgir árgöngum. Um þetta segir í skýrslunni: ,,Árgangur sem mælist lágur í neyslu þegar hann er þrettán ára, er ólíklegri til að nota vímuefni nokkrum árum síðar, en árangur sem mælist hár í neyslu við þrettán ára aldur. Full ástæða er til að byggja upp öflugt forvarnarstarf eftir að ungmenni eru komin í framhaldsskóla, þar sem neyslan, sérstaklega ölvunardrykkja, eykst til muna meðal nemenda á fyrsta ári í framhaldsskóla. Um 5% nemenda í 10. bekk, árið 2013, segjast hafa orðið ölvuð einu sinni eða oftar sl. 30 daga. Nokkrum mánuðum seinna, eru þessir sömu einstaklingar komnir í framhaldsskóla. Í október 2013 þá segjast rúm 20% 15-16 ára ungmenna hafa orðið ölvuð þetta oft. Þá sýna niðurstöður Ungt fólk rannsóknanna að um 31% 16 – 17 ára nemenda segjast hafa orðið ölvuð, einu sinni eða oftar sl. 30 daga.“

Annað sem rannsóknirnar sýna eru breytingar á mati foreldra til ölvunardrykkju með auknum aldri ungmennanna. Um helmingi færri nemendur telja að foreldrar sínir myndu bregðast illa við áfengisneyslu á fyrsta ári í framhaldsskóla heldur en á síðasta ári í grunnskóla.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.