Áfengisfrumvarpið

Áfengi í matvöruverslanir; gegn lýðheilsumarkmiðum?

Unnið er að frumvarpi til laga um að heimila sölu áfengis í verslunum á Íslandi. Embætti landlæknis bendir á að taka þurfi tillit til niðurstaðna rannsókna og leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) áður en slíkar ákvarðanir eru teknar.

Landlæknisembættið segir að vanda þurfi til verka áður en ákvarðanir eru teknar um sölu áfengis í verslunum. Áfengi sé ekki venjuleg neysluvara og niðurstöður rannsókna sýni að aukið aðgengi að því, geti aukið áfengisneyslu.

„Aðgerðirnar gætu leitt til aukinnar neyslu áfengis og aukins samfélagslegs kostnaðar“, segir á vef landlæknis. Ennfremur segir að stýring á aðgengi að áfengi sé algeng leið til að takmarka áfengisneyslu. Niðurstöður rannsókna bendi til að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni sé aflétt aukist heildarneysla áfengis.

Áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að draga úr ótímabærum dauðsföllum miðar að því að draga úr skaðlegri áfengisneyslu um minnst 10 prósent á næstu sjö árum. Rafn Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Landlækni, segir aukið aðgengi tæpast samræmast því markmiði. „Það er nokkuð ljóst miðað við þau gögn og rannsóknir og þær leiðir sem að Alþjóðaheilbrigðismálastofnun ásamt fleiri stofnunum ráðleggja þá er mjög líklegt að aukið aðgengi muni leiða til aukinnar áfengisneyslu og þar af leiðandi myndi aukið aðgengi gera erfiðara að ná því markmiði að draga úr áfengisneyslunni.“

Rafn bendir á að samfélagsleg áhrif skaðlegrar áfengisneyslu séu mikil. „Áfengisneysla hefur áhrif á fleiri en bara neytandann. Samfélagslegur kostnaður af völdum ölvunaraksturs, slysa, vinnutaps, framleiðni og annarra margra þátta hefur áhrif, þannig að það er mjög mikilvægt fyrir okkur, af þessum ástæðum sem og heilsufarslegum ástæðum, að hafa áfengisneysluna eins lága og við mögulega getum,“ segir Rafn.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.

    2018-11-19T17:23:03+00:00júlí 18, 2014|Categories: Áfengismál, FRÆ fréttir|Tags: , |