Tóbak

Hert tóbaksvarnalög

Evrópuþingið samþykkti í gær lög um verulega hertar tóbaksvarnir í ríkjum Evrópusambandsins. Reglurnar taka líka gildi hér á landi.

Þessi dagur markar þáttaskil í tóbaksvörnum í Evrópu og varðar brautina fyrir tóbakslausa Evrópu, segir Archie Turnbull sem lengi hefur barist fyrir tóbaksvörnum. Meirihluti tóbakspakkans verður þakinn áróðri gegn reykingum og bragðefni eins og mentól verður bannað. Evrópuþingið samþykkti hertar reglur um tóbaksvarnir með yfirgnæfandi meirihluta í gær. Fimm hundruð og fjórtán greiddu atkvæði með hertum reglum, sextíu og sex voru á móti og fimmtíu og átta sátu hjá. Þessar nýju reglur taka gildi í öllum ríkjum Evrópusambandsins og er þeim ætlað að fækka reykingafólki um tvær komma fjórar milljónir. Talið er að í löndum Evrópusambandsins megi rekja sjö hundruð þúsund ótímabær dauðsföll til reykinga, á hverju einasta ári. Nýjar reglur eru taldar spara áttatíu milljarða í heilbrigðiskerfinu á ári hverju.

Reykingamenn segja nýju reglurnar dæmalausa forsjárhyggju en krabbameinssamtök og heilbrigðisyfirvöld hafa fagnað aðgerðunum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fullyrðir að þessar nýju reglur fæli ungt fólk frá því að prófa og verða háð tóbaki. Það eitt og sér leiði til tveggja prósenta minni tóbaksneyslu á næstu fimm árum því færri byrji að reykja. Jane Ellison, heilbrigðisráðherra Bretlands, fagnar þessum nýju reglum og segir þær stuðla að bættu heilsufari fólks. Breska ríkisstjórnin vilji leita allra leiða til að draga úr reykingum og sérstaklega að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Sjötíu prósent reykingamanna byrja fyrir átján ára aldur og nítíu og fjögur prósent fyrir tuttugu og fimm ára aldur.

Tilskipun Evrópusambandsins þýðir að tóbakspakkinn verður þakinn áróðri gegn reykingum. Sextíu og fimm prósent af bæði framhlið og bakhlið pakkans verður að vera með viðvaranir um þá hættu sem hlýst af reykingum. Helmingur af hlið pakkanna og endar verða einnig lagðir undir áróður. Svokallaðir varalitapakkar, sem höfða til kvenna, verða bannaðir og allir pakkar verða að vera fyrir tuttugu sígarettur, til þess að nægt pláss sé fyrir allar þessar reykingavarnir. Sömu reglur gilda nú um umbúðir fyrir tóbak handa þeim sem vefja sjálfir. Algert bann verður við jákvæðum kynningum á tóbaki, eins og að fullyrða að varan sé laus við aukaefni eða sé minna skaðleg en aðrar sambærilegar vörur. Bragðbættar sígarettur verða bannaður, en þær hafa verið seldar með vanillu, mentól eða ávaxtabragði svo dæmi séu tekin. Snus hefur verið bannað frá árinu 1992 og verður það áfram en Svíþjóð heldur undanþágu frá því banni. Barátta gegn ólöglegum viðskiptum með tóbak innan Evrópusambandsins verður hert verulega. Sérstakar reglur eru settar um hámark nikótíns í vökva fyrir rafsígarettur en einstök ríki hafa nokkurt frjálsræði um hvernig reglur gilda um rafsígarettur. Ástæðan er einfaldlega sú að ekki náðist samkomulag um rafretturnar. Reglurnar taka gildi í maí á þessu ári en aðildarríkin hafa tvö ár til að koma þeim að fullu til framkvæmda. Bann við sígarettum með mentóli og öðrum bragðefnum hefur fjögurra ára aðlögunartíma.

Hjá Embætti Landlæknis fengust þær upplýsingar að þessar reglur taki gildi hér á landi og innan þess tímaramma sem gefinn er í tilskipun Evrópusambandsins. Reyndar á eftir að semja um tímaramma fyrir EES ríkin en ekkert bendir til annars en að hann verði sá sami. Ekki hefur verið leyft að selja nikótín í rafrettur hér á landi en Lyfjastofnun fer með það mál. Hún hefur krafist sömu gagna og markaðsleyfa fyrir nikótínlyf í rafrettum og önnur nikótínlyf. Þessar hertu reglur verða teknar upp á Íslandi innan skamms.“

mbl.is 28. febrúar 2014

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.