Stefnumál
NordAN ráðstefna: Alþjóðleg stefnumörkun í ávana- og fíkniefnamálum
Ráðstefna NordAN verður haldin í Tallinn í Eistlandi dagana 12. og 13. október nk. Heiti og þema ráðstefnunnar að þessu sinni er: National policy with local implementation. Fjallað verður um tengsl alþjóðlegrar stefnumörkunar í ávana- og fíkniefnamálum, áhrif hennar á stefnumótun einstakra ríkja og hvernig stefnunni er hrint í framkvæmd á hverjum stað, þ.e. hvernig staðið er að því að ná til þeirra sem málið varðar.
Áhersla er lögð á að skoða málin frá sem flestum hliðum. Til þess eru boðnir fyrirlesarar frá Norður-Ameríku sem fjalla um hina hnattrænu hlið, fyrirlesrar koma einnig frá Mið-Evrópu til þess að fjalla um þátt Evrópu og þá framtíðarsýn sem unnið er með í samstarfi Evrópuríkja og að sjálfsögðu verða fyrirlesrar frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Í vinnuhópum verða ávana- og vímuefnamál tekin fyrir frá ýmsum hliðum. M.a. verða vinnuhópar um málefni kvenna og áhrif áfengisneyslu á aðra en neytendur sjálfa (á ensku er talað um passive drinking og harm to others í þessu sambandi). Fyrirlestrar og umræður fara fram á ensku.
Ráðstefnur NordAN bjóða upp á einstakt tækifæri til þess að fræðast um það sem efst er á baugi í forvörnum og ávana- og vímuefnamálum hverju sinni, skiptast á skoðunum, mynda tengsl og leggja drög að samstarfi.
Staðsetning ráðstefnunnar, Tallinn Song Festival Grounds, er einstök. Þar var efnt til sögulegrar sönghátíðar á þeim tíma að Eistlendingar voru að brjótast til sjálfstæðis á níunda áratugnum.
Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefsíðunni http://la8021.wix.com/nordan2013 svo sem skráningu, dagskrá, staðsetninguna og áhugaverð sögubrot.
Skráningargjald á ráðstefnuna hækkar frá og með 1. september og því um að gera að draga ekki að skrá sig.
Um NordAN
Árið 2000 stofnuðu nokkur félagasamtök á Norðurlöndum samstarfsvettvanginn NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network). Einu kröfurnar sem gerðar eru til aðildarsamtaka NordAN er að starf þeirra byggist á sjálfboðastarfi, þau styðji virka stefnu í áfengis- og vímuefnamálum og séu á engan hátt á mála hjá áfengisframleiðendum og seljendum áfengis. Nú eru 88 norræn félagasamtök og samtök í Eystrasaltsríkjunum þremur aðilar að NordAN. Þetta eru samtök sem starfa á ýmsum sviðum forvarna og beita sér fyrir áfengis- og vímuvarnastefnu sem hefur að markmiði að draga úr neyslu áfengis og annarra fíkniefna. NordAN er með skrifstofu í Eistlandi og skipa fulltrúar allra Norðurlandanna auk Færeyja og Eystrasaltsríkjanna stjórn samtakanna.
NordAN er mikilvægur vettvangur félagasamtaka á Norðurlöndum í áfengis- og vímuefnamálum. Samtökin eru farvegur tengsla, skoðanaskipta og samstarfs, t.d. með árlegri ráðstefnu um áfengis- og vímuefnamál. Á aðalfundum samtakanna sem haldinn er samhliða þessum ráðstefnum er m.a. fjallað um stefnumörkun og hlutverk og möguleika félagasamtaka til áhrifa. Auk þessa stendur NordAN fyrir sameiginlegum verkefnum félagasamtaka á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum, tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi í áfengis- og vímuefnamálum og beitir sér fyrir rannsóknum í málaflokknum.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.