Náum áttum

Ekki snefill af áfengi má vera í blóðinu 

Franska stjórnin hefur sett sér það sem stefnu að uppræta leyfileg mörk áfengis í blóði ökumanna, þannig að ekki megi vera eitt einasta milligramm í öndunar- eða glóðsýni manna sem stöðvaðir eru við umferðareftirlit.  Takmarkið með þessu er að fækka banaslysum í umferðinni, sérstaklega hjá ungu fólki, en í 40% þeirra er áfengi talið eiga hlut að máli. Af þessum sökum er ætlunin að miða bannið fyrst um sinn við unga ökumenn, 24 ára og yngri.

Aðstoðarráðherra sem fer með umferðaröryggismál í frönsku stjórninni, Frédéric Péchenard, staðfestir að í byrjun nýs árs hefjist samráðsferli sem miði að því að binda á endanum í lög að snefill áfengis megi ekki vera í blóði 18-24 ára ökumanna meðan þeir stjórna farartæki.  Péchenard segir að stefna af þessu tagi hafi verið til umræðu hjá franska umferðaröryggisráðinu (CNSR) um skeið og hvergi hafi komið fram andstaða við áformin.

Fólk á aldrinum 18-24 samsvarar 9% íbúa Frakklands, en hlutfall þeirra í banaslysum í umferðinni er enn hærra, eða 25%. Samsvarar það eittþúsund dauðsföllum á ári. Í 40% banaslysanna hefur áfengisneysla komið við sögu. Fyrir hvern látinn liggur svo fjöldi varanlega slasaðra ungmenna.

Árið 1983 lækkaði leyfilegt áfengismagn í blóði í 0,8 grömm á lítra en árið 1995 var hlutfallið lækkað í 0,5 prómill. Bætt var um betur árið 2004 er viðmiðunin var lækkuð í 0,2 g/l fyrir ökumenn almenningssamgöngufyrirtækja.

Samtök sem eru óháð stjórnvöldum og hafa barist gegn umferðarofbeldi eru algjöru áfengisbanni andvíg og segja ungu fólki með reynsluréttindi þegar sett nóg skilyrði. Miklu nær væri að framfylgja þeim en banna ökumönnum að fá sér eins og léttvínsglas. Samtökin segjast hins vegar fylgjandi aðgerðum sem líklegar þykja til að draga úr umferðarslysum í öllum aldursflokkum. Benda þau á að þótt í Bretlandi sé leyfilegt að aka með 0,8 prómill áfengis í blóði miðað við 0,5 prómill í Frakklandi séu slys færri í Bretlandi. Skýringin er sú, að þar er lögum og reglum framfylgt.

Takmark stjórnvalda er að helminga banaslys í umferðinni fyrir árið 2020, sem þýðir að þá mun fjöldi látinna fara niður fyrir 2.000 á ári. Er það mikil framför frá því fyrir um 30 árum er um 10.000 manns biðu bana í umferðinni í Frakklandi. Til að herða á eftirliti með umferðinni verður 200 nýjum hraðamyndavélum komið upp á næsta ári til viðbótar þeim 4.000 sem fyrir eru.

mbl.is

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.