Rannsókn

Ný ESPAD rannsókn:
Forvarnir skila árangri

Vímuefnaneysla unglinga er langminnst á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd. Um fjörutíu prósent íslenskra unglinga í tíunda bekk hafa aldrei prófað áfengi, sígarettur, ólögleg fíkniefni eða aðra vímugjafa, samkvæmt evrópskri rannsókn frá árinu 2011. Albanskir unglingar eru í öðru sæti, en þar er hlutfallið 32 prósent.

Rannsóknin, European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs (ESPAD), er samevrópsk og hófst hér á landi árið 1995. Hún hefur verið gerð reglulega síðan þá og hefur þróunin á Íslandi verið á þann veg að færri og færri unglingar í 10. bekk hafa notað vímuefni.

„Þessi þróun hefur verið stöðug allt frá árinu 1995 og ég held að virkt forvarnarstarf hafi verið að skila sér, bæði innan skólanna og tómstundafélaga. Einnig tel ég að foreldar í dag taki miklu meiri ábyrgð á forvarnastarfi heldur en áður,“ segir Andrea Hjálmsdóttir, félagsfræðingur við Háskólann á Akureyri, sem er hluti af rannsóknarteymi ESPAD á Íslandi. Hún segir þróun í neyslumynstrinu afar jákvæða, en aldrei megi þó sofna á verðinum þó þessum árangri hafi verið náð.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þótt færri krakkar neyti vímuefna hér virðast þeir sem þó gera það vera almennt verr settir hér á landi miðað við hin Evrópulöndin.

Samkvæmd niðurstöðum ESPAD 2011 hefur þeim fækkað sem prófa, en þeir sem eru í neyslu eru í mjög slæmum málum og eru líklegri en krakkar annars staðar í Evrópu til að lenda í vandræðum. „Það er stóra verkefnið sem við þurfum að takast á við í framtíðinni“, segir Andrea.

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði, hefur stýrt rannsóknunum hér á landi frá upphafi. Hún nær til allra nemenda í 10. bekk í grunnskólum landsins.

Fréttablaðið 26. nóvember 2012

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.