Reykingar
Tvö ríki BNA lögleiða maríjúana
Konur sem hætta reykingum fyrir þrítugt eru í nánast engu meiri hættu á að deyja úr sjúkdómum sem tengjast reykingum en konur sem aldrei hafa reykt. Þetta er niðurstaða rannsóknar í Bretlandi sem náði til rúmlega einnar milljónar kvenna.
Sagt er frá rannsókninni í BBC, en niðurstöður rannsóknanna voru kynntar í læknatímaritinu Lancet. Vitað var að konur sem reykja eru í mun meiri áhættu með að deyja en konur sem ekki hafa reykt. Rannsóknin bendir til þess að konur sem reykja meira og minna allt sitt líf deyi að meðaltali um 10 árum fyrr en konur sem aldrei hafa reykt.
Þær sem hættu að reykja þrítugar lifðu að meðaltali einum mánuði styttra en þær sem ekki höfðu reykt. Þær sem hættu fertugar lifðu einu ári styttra en þær sem ekki höfðu reykt.
Þessi viðamikla rannsókn náði til þeirrar kynslóðar kvenna sem hóf að reykja um miðja síðustu öld. Þá urðu reykingar meðal kvenna fyrst verulega útbreiddar.
„Þessi rannsókn sýnir að ef konur reykja eins og karlmenn deyja þær eins og karlarnir,“ segir Richard Peto, prófessor við Oxford-háskóla. „Meira en helmingur þeirra sem reykja og halda áfram reykingum deyr vegna sjúkdóma sem tengjast tóbaksreykingum.
Að hætta að reykja hefur ótrúlega góð áhrif á heilsu kvenna. Reykingar drepa, að hætta skiptir miklu máli og því fyrr sem þú hættir, því betra,“ segir Peto.
70% reykingamanna segjast vilja hætta reykingum
Rannsóknin leiddi í ljós að konur sem reykja lítið taka líka mikla áhættu með líf sitt. Konur sem reykja minna en 10 sígarettur á dag deyja fyrr en þær sem aldrei hafa reykt.
Þeir sem stóðu að rannsókninni taka fram að þessar niðurstöður séu ekki skilaboð til kvenna um að þær séu ekki að taka neina áhættu með því að reykja á yngri árum. Penny Woods bendir á að það reynist mörgum mjög erfitt að hætta að reykja sem sjáist best í því að 70% af þeim sem reykja segjast vilja hætta reykingum. Það sé því ekki þannig að fólk geti byrjað að reykja í trausti þess að það geti hætt þegar því dettur í hug.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.