Reykingar
Norðurlandaráð vill reyklaus Norðurlönd árið 2040
Mikil andstaða var frá fulltrúum stjórnmálaflokka sem teljast lengst til hægri og vinstri, en meirihluti fulltrúa í velferðarnefnd Norðurlandaráðs greiddi atkvæði með mjög metnaðarfullri tillögu um að Norðurlönd ættu að vera reyklaus árið 2040. Tillagan er hluti af heildarstefnu um áfengis- og tóbaksmál sem stjórnmálamenn í Norðurlandaráði samþykktu á fundi í Gautaborg á fimmtudag (27. september 2012).
„Það er einstakt að fá svona mikinn stuðning við tillögu okkar, sem ætlað er að takmarka notkun tóbaks og áfengis og draga úr heilbrigðis- og samfélagslegum kostnaði sem neyslan veldur“, sagði Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.
Hún hafði óttast að margir stjórnmálamenn myndu greiða atkvæði gegn tillögunni vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum innan tóbaks- og áfengisiðnaðarins.
Vigdis Giltun frá norska Framfaraflokknum og Anna Louhelainen frá Sönnum Finnum í Finnlandi greiddu atkvæði gegn tillögunni um reyklaus Norðurlönd ásamt Dananum Finn Sørensen úr flokkahópi vinstrisósíalista og græningja.
„Ég er algjörlega ósammála því að bann við tóbaki sé lausnin ef menn vilja tryggja heilbrigði almennings. Bann mun valda því að stór hluti íbúa telst til afbrotafólks, en það er jú einmitt sá hópur sem við viljum hjálpa“, sagði Finn Sørensen sem studdi hinar tillögurnar og hugmyndina um sameiginlega norræna stefnu á sviðinu.
„Allir hafa rétt á sterkum skoðunum um tóbak og áfengi, og því verðum við að hlusta á ráðleggingar sérfræðinga sem sýna greinilega að frekari tilslökun er ekki lausnin, heldur þvert á móti“, sagði Siv Friðleifsdóttir sem líkti banni við tóbaksnotkun við lög um öryggisbelti í bifreiðum, sem enginn gerir athugasemd við lengur.
Stjórnmálamennirnir vilja móta sjálfbæra áfengis- og tóbaksstefnu fyrir Norðurlönd fyrir tímabilið 2014 – 2020. Hún á að byggja á þeim aðgerðum sem sérfræðingar telja þær skilvirkustu til að draga úr vandamálum sem tengjast áfengi og tóbaki.
Algjört bann við markaðssetningu áfengis til ungs fólks og áfengisskynjara í öll farartæki eru raunveruleg dæmi um hvernig stjórnmálamenn ætla að draga úr áfengisneyslu á Norðurlöndum.
Greidd verða atkvæði um tillögu Norðurlandaráðs um sameiginlega stefnu í áfengis- og tóbaksmálum á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í lok október.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.