Meðganga
FASD dagurinn
– alþjóðadagur um fósturskaða vegna áfengisneyslu móður
Sunnudagurinn 9. september er tileinkaður fósturskaða af völdum áfengisneyslu móður (Foetal Alcohol Spectrum Disorders FASD). Vakin er athygli á að 1-2% barna í Evrópu fæðast með alvarlega fötlun eða líkamsgalla vegna áfengisneyslu móður á meðgöngu. Engin leið er að leiðbeina fólki um hversu mikið magn áfengis þarf til að valda skaða en alla meðgönguna virðist mjög litil áfengisneysla hindra eðlilegan þroska fósturs sem getur valdið alvarlegu tjóni hjá ófæddu barni.
Fósturskaði af völdum áfengisneyslu (FASD) getur komi fram með ýmsum hætti. Skaðleg áhrif geta verið líkamleg, andleg eða komið fram sem hegðunarvandamál og/eða námsörðugleikar síðar á ævinni og fylgt þessum einstaklingum allt lífið. Öll vitum við að ófædd börn eru varnarlaus gegn skaðlegum áhrifum áfengis og að hægt er að koma 100% í veg fyrir FASD með því að forðast alla neyslu áfengis á meðgöngu.
Árið 2006 gerði Evrópusambandið FASD að forgangsmáli við mótun áfengisstefnu sambandsins. Þótt ýmislegt hafi áunnist á þessum tíma er enn langt í land og ástæða til að ítreka fyrri markmið. EUROCARE samtökin í Evrópu hvetja á þessum degi framkvæmdastjórn ESB til að styðja aðildarríkin áfram við að draga úr algengi FASD;
- með stuðningi við upplýsingamiðlun og fræðslustarf í skólum
- með skilaboðum um skaðsemi áfengis á fóstur á umbúðum áfengra drykkja
- með því að auðvelda aðgengi fólks að sérfræðiþekkingu
- með vitundarvakningu meðal almennings
- með auknum rannsóknum um tíðni FASD og þróun forvarnastarfs, greiningar og meðferðar
- með því að upplýsa og fá til liðs við sig forvarnasérfræðinga og stjórnmálamenn
Í tilefni alþjóðadagsins verða ýmsir atburðir í löndum Evrópu sem vekja athygli á málefnum FASD, m.a. fræðslufundir, ráðstefnur og auglýsingaherferðir.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.