Kannabis

Kannabisneysla veldur varanlegri greindarskerðingu

Ungt fólk sem neytir kannabisefna, reykir hass og marjúana, sætir gjarnan mikilli og varanlegri greindarskerðingu. Skerðingu sem ekki gengur að fullu  til baka þótt neyslu sé hætt. Þetta er staðfest í viðamikilli rannsókn sérfræðinga á Nýja Sjálandi.

Fylgst var grannt með rúmlega þúsund manns í tvo áratugi, frá barnsaldri og fram á fertugsaldur, og greind þeirra mæld með jöfnu millibili.

Þegar tillit er tekið til alls annars; svo sem skólagöngu, áfengisneyslu, og jafnvel neyslu annarra fíkniefna, telja sérfræðingarnir engum vafa undirorpið að þeir sem reykja hass eða marjúana, einkum þeir sem byrja snemma, hefja neysluna á unglingsárum, þegar heilinn er enn í mótun, skerða andlegt atgervi sitt verulega. Þannig tapa þeir að jafnaði átta stigum hinnar almennu greindarvísitölu. Því meira hass og marjúna, því meiri áunnin heimska.

Breskir fræðimenn segja niðurstöðuna koma fáum á óvart, það sé alkunna að árangur kannabisneytenda í hvers konar vitsmunastarfi, svo sem námi og krefjandi störfum, sé snöggtum lakari en þeirra sem láti þessi fíkniefni eiga sig. Robin Murray, prófessor við King’s College London Institute of Psychiatry, bendir á að þrátt fyrir að fara verði varlega í að álykta um of á grundvelli niðurstaðna einstakra rannsókna taki hann niðurstöður rannsóknarinnar alvarlega, enda sé hún líklega umfangsmesta rannsókn á þessu sviði í heiminum.

Byggt á: 
http://ruv.is/frett/kannabis-forheimskar-folk
http://www.bbc.co.uk/news/health-19372456
http://www.pnas.org/content/early/2012/08/22/1206820109.abstract?sid=44a1d7c7-cd8b-4564-b30e-1cbb4566131

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.