Kannabis
Kynbætt kannabis og aukin framleiðsla
Kynbætur á kannabisplöntum sem framleiddar eru hér á landi hafa orðið til þess að marijúana er sterkara en nokkru sinni fyrr. Kannabisframleiðslan hefur margfaldast eftir hrun og um fjögur hundruð mál koma árlega inn á borð lögreglunnar.
Fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi veltir milljörðum árlega en ekki er ljóst hversu þungt kannabissala vegur af honum. Miðað við fjölda mála hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu blómstrar framleiðslan og hefur aukist mikið síðustu ár. Óvenju mörg mál komu til kasta lögreglunnar í síðasta mánuði en þá gerði fíkniefnadeildin sérstaka atlögu að kannabisframleiðslu.
Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að um tíma hafi daglega verið stöðvuð kannbisræktun. „Bara hér á höfuðborgarsvæðinu eru fjögur hundruð mál á ári, af þeim eru mjög líklega í kringum hundrað á ári sem eru bara ræktanir með yfir hundrað plöntum, restin eru kannski minni ræktanir. Þannig að meðaltali erum við að stöðva ræktanir einu sinni til tvisvar í viku.“
Ýmsar breytingar hafa orðið á framleiðslunni síðustu ár og hefur hass nánast vikið fyrir marijúana sem er nú orðið sterkara en áður. „Þessi markaður fyrir kannabisefni er mjög sterkur hérna á Íslandi. Ein af ástæðunum fyrir því að marijúana, sem er ræktað hér, hefur komið í staðinn fyrir hassið er sú hversu ,,gott efni“ er um að ræða. Mönnum er semsagt að takast að kynbæta plönturnar. Þær eru ekkert endilega stórar heldur hafa þær hátt THC-gildi, sem er þetta skaðlega efni, og það er þess vegna sem þetta hefur náð svona sterkri stöðu á markaðnum, að mínu mati.“
Sjá mbl.is
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.