Fíkniefnaframleiðsla

Líklegt að fíkniefni séu framleidd á Íslandi til útflutnings

Í nýrri skýrslu frá ríkislögreglustjóra er talið líklegt að fíkniefni séu framleidd hér á landi til útflutnings. Vísbendingar um umfang framleiðslunnar bendi til þess að hún sé ekki öll til heimabrúks. Í skýrslunni segir m.a.:

Fyrirliggjandi upplýsingar eru á þann veg að framleiðsla á örvandi efnum og marijúana hafi stóraukist hér á landi á undanförnum árum. Að einhverju leyti má tengja þessa þróun við hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og þá efnahagsörðugleika og gjaldeyrishöft sem því hafa fylgt. Þó ber að taka fram að sömu þróunar hefur orðið vart á þessu tímabili í mörgum ríkjum Evrópu og gildir það einkum um ræktun á marijúana.

Vitað er að glæpamenn frá Austur-Evrópu, einkum Póllandi og Litháen, eru fyrirferðarmiklir á markaði einkum hvað varðar innflutning og framleiðslu örvandi efna. Amfetamínframleiðsla er sem fyrr umfangsmikil í Póllandi og Litháen. Á undanförnum árum hefur margoft tekist að stöðva innflutning á efnum til amfetamínframleiðslu hér á landi. Vitað er að þessi framleiðsla skilar sérlega sterkum og hættulegum örvandi efnum. Þekkt er að menn undir áhrifum þeirra geti verið stjórnlausir og ofbeldisfullir. Framleiðslu slíkra efna fylgir og hætta á sprengingum. Telst þessi framleiðsla því vaxandi samfélagsógn.

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að aukin „atvinnumennska“ einkenni bæði innflutning og framleiðslu fíkniefna. Þekkt er hvað innflutning fíkniefna varðar að menn sinni þar skilgreindum verkefnum og þekki jafnvel ekki til annarra sem að innflutningnum/framleiðslunni koma. Þannig sjái einn aðili um samskipti við erlenda fíkniefnaheildsala, annar ákveði sjálfa innflutningsleiðina og hinn þriðji útvegi „burðardýr“ þegar sú aðferð er talin henta. Hið sama á í stærri tilfellum einnig við um flutning efna á milli staða og dreifingu þeirra. Lögregla upplýsir að þekkt sé að áþekk verkaskipting þekkist þegar um er að ræða framleiðslu marijúana.

Vísbendingar um umfang fíkniefnaframleiðslu hér á landi hafa orðið til þess að vekja grunsemdir um að hluti framleiðslunnar kunni að vera fluttur úr landi. Grunur um útflutning vaknaði árið 2008 þegar lögregla upprætti mjög afkastamikla amfetamínverksmiðju. Umfang þeirrar kannabisræktunar sem lögregla hefur stöðvað á síðustu þremur árum kann að vera slíkt að ástæða sé til að álykta að hluti framleiðslunnar sé fluttur úr landi.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.