Stefnumál
Setja þarf framleiðendum og seljendum áfengis reglur og móta langtíma stefnu og aðgerðaaáætlun í áfengismálum
NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network), sem er samstarfsvettvangur tæplega níutíu félagasamtaka á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum þremur, samþykkti á aðalfundi sínum sem haldinn var í Vilnius í Litháen 22. október síðastliðinn ályktanir þar sem minnt er á að áfengi sé engin venjuleg neysluvara. Neysla þess tengist sterklega alvarlegum vandamálum sem snúi bæði að einstaklingum og samfélögum. Aðilar sem hafa fjárhagslegan hag af neyslu og sölu áfengis hafi vitaskuld áhuga á að stækka markaði sína og ná til nýrra neytenda, sem er einkum að finna meðal ungs fólks og kvenna. Rannsóknir sýni að markaðssetning áfengis ýti undir áfengisneyslu og vanda sem henni tengist. Rannsóknir sýni einnig ljóslega að virkar reglur sem takmarka markaðssetningu áfengis hafi gagnstæð áhrif.
Bent er á að gildandi reglur Frakka, Færeyinga, Norðmanna og Íslendinga um markaðssetningu áfengis séu meðal þeirra bestu sem finna megi. Fundurinn styður eindregið samþykkt stjórnvalda í Litháen um bann við áfengisauglýsingum sem taka eiga gildi 1. janúar á næsta ári og hvetja aðrar þjóðir til þess að fylgja fordæmi þeirra.
Minnt er á að jafnvel lítið magn áfengis virðist auka líkur á sumum krabbameinum og fjöldi barna sem fæðast sködduð vegna áfengisneyslu mæðra á meðgöngu virðist mun meiri en áður hefur verið talið (Fetal Alcohol Spectrum Disorder). Margir líði fyrir áfengisneyslu annarra, sem feli m.a. í sér samskiptaárekstra en einnig alvarlegri hluti s.s. sambúðarvanda, ofbeldi gagnvart börnum, afbrot, ofbeldi og manndráp.
Þessu verði að bregðast við með fjölþættum úrræðum og langtíma stefnumörkun líkri þeirri sem sett er fram í Evrópsku áfengisaðgerðaáætluninni 2006-2012 (European Alcohol strategy 2006-2012). Sú áætlun hefur verið mikilvæg hvatning aðildarþjóðum Evrópusambandsins til þess að bregðast við með lagasetningu og aðgerðaáætlunum. Aðalfundur NordAN 2011 hvetur ríkisstjórnir Evróuríkja til þess að endurnýja þessa aðgerðaáætlun sambandsins og setja fram nýja áætlun sem byggist á faglegri þekkingu og gagnreyndum leiðum.
Frekari upplýsingar veitir Árni Einarsson fulltrúi Íslands í stjórn NordAN í síma 861 1582. Einnig má hafa samband á netfangið arni@forvarnir.is
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.