Reykjanesbær
Heilsu- og forvarnavika í Reykjanesbæ
Vikuna 3. – 9. október var haldin í fjórða sinn sameiginlega Heilsu- og forvarnavika í Reykjanesbæ. Allar stofnanir Reykjanesbæjar auk fjölmargra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka tóku þátt í verkefninu. Segja má að Geðræktarganga Bjargarinnar hafi lagt tóninn fyrir heilsu -og forvarnavikuna með heilsuræktargöngunni og geðorðunum 10 í upphaf vikunnar. Áhersla var lögð á hollan og góðan mat venju fremur og sáu Skólamatur og Menu-veitingar um að laða fram lokkandi heilsurétti. Fyrirlestrar, blóðþrýstings- og aðrar heilsumælingar voru í boði, ýmis tilboð í fyrirtækjum á heilsuvörum, Lífsstíll bauð í líkamsrækt, Íþróttahúsið að Ásbrú bauð í skvass, HSS var með vel heppnaðan fyrirlestur um streitu og streitulosun ásamt mælingum við Nettó, ganga á Þorbjörn í boði Isavia og Fríhafnarinnar, Nesvellir og leikskólarnir í Reykjanesbæ buðu uppá fjölbreytta dagskrá og Bókasafn Reykjanesbæjar bauð bæjarbúum uppá óvænta bókaglaðninga.
Í samstarfi við Brunavarnir Suðurnesja, FS, Lögregluna á Suðurnesjum, TM og Reykjanesbæ var Forvarnardagur ungra ökumanna haldinn í 88-húsinu og tóku um 125 nemendur í FS þátt í honum.
Fjöldaskokk, fyrirlestrar, Bara gras? málþing um skaðsemi kannabis, kirkjustarf, vettvangsferðir og margt, margt fleira var í boði í Heilsu-og forvarnavikunni.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.