Ungmenni
Ungt fólk sækir upplýsingar um fíkniefni fyrst og fremst á netið
Í könnun sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (European Commission)1)stendur að og kallast Youth attitudes on drugs2) um viðhorf ungs fólks til fíkniefna og kynnt var 11. júlí síðastliðinn kemur í ljós að 64% ungs fólks sækir upplýsingar sínar um fíkniefni fyrst og fremst á netið, 37% frá vinum og 28% frá fjölskyldumeðlimum. Þegar spurt var hvaðan upplýsingar sem þau hefðu fengið á síðast liðnu ári hefðu komið sögðu 39% þær komnar af netinu, 61% úr fjölmiðlakynningum og 41% í skólum. Könnunin leiddi samt í ljós að þáttur netsins sem helsta uppspretta ungs fólks um fíkniefni hefur aukist frá árinu 2008.
Könnunin var símakönnunar sem framkvæmd var í öllum 27 aðildarríkjum sambandsins, náði til 12 þúsund svarenda á aldrinum 15-24 ára og er sú þriðja í röðinni um þetta efni. Eldri kannanir eru frá árunum 2002, 2004 og 2008.
Meðal annars var spurt um viðhorf til heilsufarsáhættu af fíkniefnaneyslu, viðhorfa til þess að banna eða takmarka dreifingu og notkun fíkniefna, viðhorf til aðgengis að fíkniefnum og viðhorf til árangurs forvarnaaðgerða í fíkniefnamálum. 59% unga fólksins segist styðja bann við neyslu kannabisefna, en stuðningurinn var 67% árið 2008.
Könnunin leiddi í ljós talsverðan mun á viðhorfum eftir því hvaða fíkniefni eiga í hlut. 23% svarenda töldu mikla heilsufarsáhættu fylgja því að nota kannabisefni 1-2 sinnum á móti 59% ef um ecstasy væri að ræða og 66% varðandi kókaín. 67% töldu stöðuga notkun kannabisefna heilsuspillandi á móti 90% ef um ecstasy eða kókaín var að ræða. Neytendur kannabisefna töldu heilsufarsáhættu vegna kannabisefna mun minni en þeir sem ekki neyta kannabis.
- Framkvæmdastjórn ESB (European Commission) er ein helsta stofnun bandalagsins. Hún gætir hagsmuna sambandsins sem heildar, gerir drög að nýrri löggjöf, stýrir daglegri framkvæmd á stefnu sambandsins og ráðstöfun á fjármunum. Í henni á nú sæti einn fulltrúi hvers aðildarlands, hver með sitt verksvið svipað og í ríkisstjórnum, en starfsmenn hennar eru embættismenn.
- Flash Eurobarometer 330: http://ec.europa.eu/public_opinion/flash/fl_330_en.pdf
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.