Vika 43

Vika 43 sett í Þjóðleikhúsinu

Vímuvarnavikan Vika 43 var formlega sett í gær í Þjóðleikhúsinu að viðstöddum nemendum frá Sjálandsskóla í Garðabæ, framáfólki í æskulýðs- og forvarnastarfi á Íslandi, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins Stefáni Eiríkssyni og ráðherra dóms- og mannréttindamála, Ögmundi Jónassyni.  Þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir bauð gesti velkomna í leikhús þjóðarinnar og fagnaði þessu samstarfi leikhússins og Vímuvarnavikunnar en forvarnaleikritið Hvað ef? er nú sýnt í Kassanum og er ætlað efri bekkjum grunnskóla.  Nemendum er boðið á þessa sýningu í Kassanum í vetur en Vika 43 kostaði 10 fyrstu sýningarnar fyrir 1200 grunnskólanemendur í vímuvarnavikunni. Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands opnaði síðan formlega Viku 43 með því að lesa upp áskorun sem undirrituð er af öllum 22 þátttökusamtökum í þessu árlega forvarnaverkefni.
Eftir opnunina var öllum boðið á frumsýningu á Hvað ef? (www.hvadef.is) í Kassanum.

Áskorun Viku 43:

Málið varðar okkur öll!

„Ungum kannabisneytendum sem leita sér meðferðar hefur fjölgað um helming síðustu ár á Íslandi. Fíkniefnaneysla getur verið dýrkeypt. Það þekkja þeir sem missa tökin á neyslu sinni, fjölskyldur þeirra, aðstandendur og vinir. Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt. Á grundvelli þeirrar vitneskju er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um kannabisefni sem oft eru klæddar í búning hlutlægra og áreiðanlegra upplýsinga.

Í æsku og á unglingsárum er lagður grunnur að framtíð einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Foreldrar, kennarar og aðrir uppalendur eru í lykilhlutverki í uppeldi og forvörnum, meðal annars með því að veita börnum og ungmennum leiðsögn við gagnrýnið mat á upplýsingum og veita þeim hlutlægar og traustar upplýsingar. Börn og ungmenni þurfa skýr skilaboð frá fjölskyldum sínum um að hafna neyslu fíkniefna, en jafnframt stuðning og hvatningu gagnvart hverskyns áreiti og þrýstingi til neyslu fíkniefna.

Við hvetjum til opinnar og ábyrgrar umræðu um fíkniefnamál og köllum eftir almennri þátttöku og samstöðu um velferð barna og ungmenna. Málið varðar okkur öll.“

Undirrituð af fulltrúum þátttökusamtaka Viku 43:

Bandalag Íslenskra skáta, Barnahreyfing IOGT, Brautin – bindindisfélag ökumanna, FÍÆT – félag Ísl. æskulýðs- og tómst.fulltrúa, FRÆ – Fræðsla og forvarnir, Heimili og skóli, Hvíta bandið – líknarfélag, IOGT á Íslandi, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands  ÍSÍ, 0% hópurinn, KFUM-K, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Kvenfélagasamband Íslands, Samstarfsráð um forvarnir SAMFO, SAMFÉS, SAMHJÁLP, Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum, Samtök skólamanna um bindindisfræðslu SSB, UMFÍ – Ungmennafélag Íslands, Ungmennahreyfing IOGT, VÍMULAUS ÆSKA – Foreldrahús  og Vernd – fangahjálp.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.