Meðganga

Áfengi skemmir frá fyrsta degi meðgöngu

Áfengisneysla verðandi móður er skaðlegri fyrir fóstur í móðurkviði en neysla eiturlyfja. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var við háskólann í Bergen í Noregi. Í rannsókninni voru 130 börn og unglingar, 4-14 ára gömul, rannsökuð á árunum 1997-2007. Mæður þeirra misnotuðu áfengi, eiturlyf eða læknadóp á meðgöngu.

Börnin skiptust í þrjá hópa. 29 þeirra voru greind með heilkenni sem tengist fósturskaða af völdum áfengisneyslu. Þau uxu ekki eðlilega, báru merki taugaskaða og afmyndana í andliti.
35 börn greindust með væg einkenni fósturskaða af völdum áfengisneyslu. 66 barnanna báru greinileg merki misnotkunar móðurinnar á eiturlyfjum eða lækningalyfjum.
Þá sýnir rannsóknin að misnotkun allra tegunda vímuefna dró úr einbeitingu og olli athyglisbresti hjá börnunum. Börn mæðra sem neytt höfðu mest af áfengi á meðgöngunni stóðu sig verst á gáfnaprófum.

Vísindamaðurinn Knut Dalen segir að ráðgeri mæður að eignast börn eigi þær að halda sig frá áfengisneyslu. Þetta geti hljómað sem siðferðispredíkun, en það sé góð leið til að koma í veg fyrir að barnið bíði tjón. Áfengið skemmi frá fyrsta degi meðgöngunnar.

mbl.is 11.2.2010

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.