FRÆÐSLA OG FORVARNIR

    

  FRÆBLADID-Mai2016
  ahrif2
  Forsidanet
  hand2
  Handbok1a
  verk2
  SAFFlogo15net

  amstarfsráði

  v43einndalkB
  a
  kannabis15
  framhsk2
  oafengt2013
  efni2

   _____________________

   ÁFENGISMÁLASTEFNA
   ÍSLENDINGA 1100 - 1992

   _
  __________________

  bida_bordi2


  ÉG ÆTLA AÐ BÍÐA...
  auglýsingar

  Bida14

  d

  d

  d

  Forvarnir, áhrifaríkasta leiðin í heilbrigðismálum 12.12.2013

  Heilbrigðismál og rekstur heilbrigðisstofnana hafa verið í brennidepli síðustu misseri, ekki síst síðustu vikur, vegna fjárskorts og niðurskurðar. Í þá umræðu hefur vantað tilfinnanlega umfjöllun um varanlegustu og farsælustu leiðina til úrbóta sem getur hvort tveggja í senn dregið úr umfangi og fjárþörf heilbrigðisstofnana og aukið lífsgæði fólksins í landinu í formi betri heilsu. Umræða stjórnmálamanna þarf ekki síður að snúast um leiðir til eflingar heilsu landsmanna en hvernig hægt sé að bregðast við vanheilsu.

  Vanheilsa og lífsstíll

  Stærstan hluta vanheilsu fólks má rekja til lífsstíls (að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar), þ.e. byggist á vali og ákvörðunum fólks um hvernig það hagar lífi sínum. Þar vegur neysla áfengis, tóbaks og annarra ávanaefna þungt. Að mati stofnunarinnar má rekja 40% af vanheilsu og ótímabærum dauðsföllum í Evrópu til reykinga, áfengisneyslu og umferðarslysa (en þar eiga áfengi og önnur vímuefni líka stóran þátt)[1]. Þá er ótalið það félagslega og sálræna tjón sem neysla ávana- og vímuefna veldur mörgum neytendum og fjölskyldum þeirra, ýmis neikvæð áhrif á borgarana og kostnaður samfélagsins, s.s. vegna löggæslu, afbrota og félagslegra úrræða og tjón atvinnulífsins.

  Það er flókið mál að breyta lífsvenjum, enda áhrifaþættir margs í daglegu lífi okkar grafnir djúpt í þjóðarsálina og hefðum. Breytingar á lífsvenjum geta ekki eingöngu komið ofan frá. Þær verða líka að koma innan frá, frá borgurunum og njóta skilnings og stuðnings fólks. Til þess verður að virkja fólk í nánasta umhverfi sínu, virkja grasrótina umtöluðu. Lífsstílsbreytingar eru því ekki bara spurning um stefnumörkun í orði, stjórnvaldsákvarðanir og starfsemi ráðuneyta og ríkisstofnana.

  Félagasamtök, grasrót og félagsauður

  Félagasamtök eru vettvangur borgaranna til þess að hafa áhrif á samfélagsþróunina og sinna verðugu og mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau berjast fyrir samfélagslegum úrbótum og hafa mörg hver veitt fjölþætta samfélagslega þjónustu í langan tíma. Félagasamtök eru í náinni snertingu við daglegt líf fólks og geta m.a. nýtt tengslanet sín til þess að virkja sjálfboðaliða í nærsamfélaginu á skömmum tíma og þátttaka þeirra getur haft margfeldniáhrif í samfélaginu. Félagasamtök hafa einnig meira frelsi, svigrúm og sveigjanleika til athafna en stjórnvöld. Þau eru skapandi afl sem getur boðið fjölþættar lausnir.

  Íslensk félagasamtök búa yfir vel menntuðu og hæfu fólki til þess að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum, rétt eins og stjórnvöld. Ábyrgð og faglegur metnaður er ekkert síðri. Sú fjölþætta nálgun sem félagasamtök geta boðið er kostur en ekki ókostur.

  Það er ekki síst á vettvangi félagasamtaka og fyrir tilstilli þeirra að hinn eftirsóknarverði félagsauður (social capital) verður til vegna áhrifa þeirra félagstengsla sem einstaklingar mynda í samskiptum sínum. Þessi tengsl eru mikilvægur auður vegna hinna margvíslegu jákvæðu áhrifa sem þau geta haft á velsæld og hagsæld einstaklinga og samfélaga. Það er kominn tími á að við lítum á félagsauð með sama hætti og efnislegan auð (physical- capital) og mannauð (human-capital).

  Félagasamtök og forvarnir

  Saga ávana- og vímuvarna á Íslandi hefur einkennst af frumkvæði og virkni almannasamtaka (auk ýmissa takmarkana á framboði og aðgengi að þessum efnum) með þeim ágæta árangri að notkun ávana- og vímuefna Íslendinga er með því minnsta sem þekkist í Evrópu. Fyrir vikið benda m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið á Ísland (og hin Norðurlöndin einnig) sem fyrirmyndir í forvarnamálum.

  Um árabil hafa rúmlega tuttugu íslensk félagasamtök sem starfa á landsvísu átt með sér samstarf í forvörnum, Samstarfsráð um forvarnir. Þessi samtök vinna öll að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.

  Með því að kalla þessi samtök til samstarfs og efla og greiða götu starfsemi félagasamtaka í forvörnum er með virkum hætti stuðlað að auknum lífsgæðum landsmanna og betra samfélagi. Góður árangur í forvörnum dregur auk þess úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.

  Nýja hugsun og nýjar lausnir

  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er bætt lýðheilsa og forvarnastarf meðal forgangsverkefna og samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og sjálfboðastarf á því sviði viðurkennt. Lýst er yfir vilja til þess að greiða götu slíkrar starfsemi og mikilvægi félagasamtaka sem efla og bæta íslenskt samfélag viðurkennt. Þessar yfirlýsingar eru fagnaðarefni þeim sem vinna að forvörnum og samfélagsþróun á vettvangi félagasamtaka, grasrótarinnar. Það er mikilvægt að viðhorf stjórnvalda til félagasamtaka markist ekki af ölmusu- og styrkjahugsun, heldur byggist á mikilvægu og skilgreindu samfélagslegu hlutverki þeirra.

  Ekki er ástæða til þess að ætla annað en að ríkisstjórnin og stjórnvöld vilji fylgja eftir þessum ágætu fyrirætlunum. Ekki einungis í orði heldur líka í verki. Nú er tíminn fyrir nýja hugsun, nýja nálgun og varanlegan árangur.

  Greinin er skrifuð í tilefni Viku 43, Vímuvarnavikunnar 2013.

  Árni Einarsson er framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna (FRÆ)


  [1] European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012-2020. World Health Organization 2012. ISBN 978 92 890 0286 8.

   

  Til baka...