FRÆÐSLA OG FORVARNIR

    

  FRÆBLADID-Mai2016
  ahrif2
  Forsidanet
  hand2
  Handbok1a
  verk2
  SAFFlogo15net

  amstarfsráði

  v43einndalkB
  a
  kannabis15
  framhsk2
  oafengt2013
  efni2

   _____________________

   ÁFENGISMÁLASTEFNA
   ÍSLENDINGA 1100 - 1992

   _
  __________________

  bida_bordi2


  ÉG ÆTLA AÐ BÍÐA...
  auglýsingar

  Bida14

  d

  d

  d

  Skaðsemi kannabis 30.10.2012


  Viðhorf ungmenna á Íslandi til kannabisefna hafa breyst mikið undanfarið en jákvæð umræða og hugmyndir um skaðleysi kannabisefna er orðin vinsæl. Neysla þessara efna er einnig mikil meðal ungmenna en samkvæmt könnunum hefur tæplega helmingur stráka yfir 18 ára aldri í framhaldsskóla prufað marijúana. 

  Kannabisefni eru þó ekki skaðlaus en áhrif þeirra má t.d. sjá á skerðingu á heila og starfsemi hans. Neyslan eykur líkur á geðrofi, þunglyndi, kvíðaröskunum og skerðir minni þó svo neyslu sé hætt. Öndunarfærin verða einnig fyrir skemmdum og má þar helst nefna auknar líkur á lungnakrabbameini, jafnvel hærri en hjá tóbaksneytendum. Kannabisefni hafa einnig mjög slæm áhrif á hjarta og æðakerfi en auknar líkur eru á hjartsláttaróreglu, hjartaáfalli og blóðtappa í kjölfar neyslu. 

  Til eru fjórar tegundir kannabisefna og eru til ýmsar leiðir til að innbyrða efnin en algengast er þó að þau séu reykt. Kannabisefni eru ávanabindandi en neytendur þurfa stöðugt stærri skammt til að ná sömu vímu og þar sem innihaldsefnin er fituleysanleg safnast þau fyrir í fituvefum og heila við reglulega notkun. Fráhvörf eru algeng og svipar þeim til tóbaksfráhvarfa. Augljóst er að eitthvað þarf að gera til að snúa þessari viðhorfsþróun við og telur höfundur forvarnarfræðslu þar mikilvægasta. 


   
  Skaðsemi kannabisefna
   
  Áhrif kannabisefna á heilastarfsemi
  Því fyrr sem kannabisnotkun hefst þeim mun verri virðast áhrifin vera á þroska heilans.  Margar rannsóknir sýna að tenging sé milli langvarandi kannabisnotkunar og skaða á heilastarfsemi og geðrænnar heilsu.  THC, sem er vímugjafinn í kannabisefnum, veldur aðallega þessum skaða en rannsóknir hafa sýnt fram á að Cannabidiol, sem er annað innihaldsefni kannabisefna, vegi upp á móti THC. Svo virðist sem Cannabidiol sé innbyggð vörn gegn skaðsemi THC og getur jafnvel nýst við meðferð einstaklinga með geðhvörf og kvíðaraskanir. Vandamálið er að ræktendur kannabisefna eru stöðugt að þróa kynbættar kannabisplöntur sem innihalda sem hæsta magn THC á kostnað Cannabidiols. Það gerir að verkum að þessi innbyggða náttúrulega vörn í kannabisefnum sé smám saman að hverfa og þannig aukast líkurnar á að neytandinn upplifi geðhvörf eftir notkun. Rannsóknir sýna að THC getur framkallað geðklofalík einkenni, breytt skynjun, aukið á kvíða, seinkað orðaendurtekningum og orðaminni, skert athygli, skert orðaflæði, skert vinnsluminni ásamt fleiri þáttum. Þetta bendir til  að THC framkalli víðtæk áhrif á hegðun og heilastarfsemi sem líkjast mörg einkennum geðrofs. Þessi einkenni magnast einnig upp ef einstaklingurinn er þegar með geðklofagreiningu en þekkt er að þessir einstaklingar noti margir kannabisefni.  
   
  Áhrif kannabisefna á minni
  Kannabisefni hafa áhrif á minni neytenda samkvæmt rannsóknum. Neysla efnanna hefur þau áhrif að neytandinn á erfiðara að leysa einföld minnispróf og þessi skerðing versnar til munar ef um langtímaneyslu er að ræða. Langtímaneytendur eiga einnig erfiðara með athygli, að læra nýja hluti og meta tímalengd en þessi skerðing getur komið fram þó svo að einstaklingurinn sé ekki í vímu og versnar með árafjölda notkunar. Oftar en ekki gera neytendur sér ekki grein fyrir þessari minnisskerðingu.
   
  Þunglyndi og kvíðaraskanir
  Neytendur kannabisefna eru líklegri til að þjást af þunglyndi og kvíðaröskunum og þá sérstaklega konur. Rannsókn frá Ástralíu sýndi að þær konur sem reyktu daglega kannabisefni eru meira en fimmfalt líklegri til að þjást af þunglyndi og kvíða miðað við þær konur sem notuðu ekki kannabisefni. Þegar skoðuð var kannabisnotkun hjá þeim sem notuðu efnin einugis á unglingsárunum þá kom í ljós að líkurnar á þunglyndi og kvíða tvöfaldaðist hjá þeim sem neyttu efnanna vikulega og fjórfaldaðist hjá þeim sem neyttu þeirra daglega. En þetta bendir til þess að kannabisnotkun á unglingsárum auki líkur á þunglyndi og kvíða næstum jafnmikið og ef neyslu er haldið áfram fram á fullorðinsár. 
   
  Vandamál tengd öndunarfærum
  Margar rannsóknir sýna að kannabisreykingar hafa skaðleg áhrif á öndunarfærin. Kannabisreykingar virðast hafa öðruvísi áhrif á lungnavirkni  en tóbaksreykingar. Kannabisreykingar hafa verið tengdar við stækkun á lungum, sem er merki um oföndun, og aukna mótstöðu í öndunarveginum . Fleiri rannsóknir sýna mun á kannabis- og tóbaksreykingum þar sem kannabisneytendur skemma frekar í sér öndunarfærin, hafa meiri einkenni frá öndunarvegum og takmarkað loftflæði um öndunarveginn. Þessi einkenni geta komið fram hjá mjög ungum einstaklingum sem hafa jafnvel ekki langa kannabisneyslu að baki. 
   
  Krabbamein í lungum
  Rannsókn frá árinu 2008 sýndi fram á að ef einstaklingur reykir eina marijúanajónu á dag í eitt ár (kallast jónuár) eykur hann lýkur sínar að fá lungnakrabbamein um 8% á hverju ári á meðan tóbaksreykingarmaður eykur lýkur sínar um 7% fyrir hvert pakkaár (einn pakki á dag í eitt ár). Það bendir til að ein jóna sé skaðlegri en heill pakki af sígarettum. Margar fleiri rannsóknir styðja þessa tengingu á milli kannabisreykinga og lungnakrabbameina.
   
  Vandamál tengd hjarta og æðakerfi
  Kannabisnotkun eykur líkur á hjarta- og æðavandamálum. Notkun eykur líkur á breytingum á takti eins og hraðtakti (sinus tachycardia), hægtakti (sinus bradicardia), 2°atrioventricular block og gáttaflökts (atrial fibrillation). Einnig er aukin hætta á æðaþrengingum sökum hækkunar á Carboxyhaemoglobin (COHb). En það eykur á súrefnisþörf hjartans með minnkuðum súrefnisbirgðum í blóði sem getur valdið blóðþurrð eða hjartaáfalli. Útfellingar í æðunum geta einnig losnað vegna æðaþrenginga eða æðakrampa en það ásamt blóðstorkuáhrifum kannabisefna eykur verulega líkurnar á blóðtöppum. Allir þessir þættir, hjartsláttaróreglan, blóðþurrð hjartans og blóðtappar geta dregið fólk til dauða. Blóðþrýstingur hækkar svo almennt þegar einstaklingar hætta kannabisnotkun sem hefur mjög neikvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið.
   
  Fíkn og fráhvörf
  Margir telja að kannabisefni séu ekki ávanabindandi en rannsóknir benda til að í kannabis séu  vanabindandi efni sem  líkaminn myndar þol gegn. Einstaklingurinn þarf alltaf meira og meira magn til að ná sömu vímunni sem bendir til þess að menn geta orðið háðir kannabisefnum og þeim  fjölgar einnig stöðugt sem sækjast eftir aðstoð frá heilbrigðiskerfinu við að hætta notkun þeirra. Magn kannabis í líkamanum hækkar með stöðugri neyslu en efnin í kannabisi setjast að bæði í fituvef og heila. Kannabisneytendur eiga hættu á því að fara í fráhvörf ef langvarandi neyslu er hætt og geta einkennin varað í langan tíma. Fráhvarfseinkennin eru oftast andleg eða tengd hegðun, en margt annað spilar inn í eins og minnkuð matarlyst, þyngdartap og ýmis líkamleg óþægindi. 
   
  Kannabis og meðganga
  Kannabisnotkun mæðra á meðgöngu getur haft skaðleg áhrif á fóstur. Neyslan eykur líkur á ýmsum slæmum þáttum eins og léttburafæðingu, fyrirburafæðingu, vaxtarskerðingu og innlögn nýburans á vökudeild vegna ýmissa heilsuvandamála. Kannabisnotkun mæðra á meðgöngu skerðir vöxt og þroska fóstursins á mið- og lokahluta meðgöngu sem gerir það að verkum að börnin fæðast minni, með minna höfuðummál og eru veikbyggðari. Vaxtarskerðing fóstra var mest hjá þeim mæðrum sem notuðu kannabisefni endurtekið á meðgöngu og er alvarlegri en hjá mæðrum sem reykja tóbak á meðgöngu.
   
  Auknar líkur á dauða
  Mjög ólíklegt er að menn deyi af völdum of stórs skammts af kannabisefnum. En þó svo að ofneysla dregur einstaklinga ekki til dauða geta þeir auðveldlega dáið af hinum ýmsu ástæðum sem eru nefndar hér fyrir ofan. Skráning um sögu kannabisneyslu er ekki mjög algeng á sjúkrahúsum en oft er ekki spurt um hana. Því er möguleiki á að dauðsföll séu ekki skráð af völdum kannabisefna og því getur tíðni þeirra verið mun hærri.

  ANDREA ÝR JÓNSDÓTTIR
  Grein úr lokaverkefni til BS prófs í hjúkrunarfræði (12 einingar)
  Leiðbeinandi: Guðrún Pétursdóttir
  Júní 2012

  ____________________________________________

  Andrea Ýr starfar m.a. hjá VERJAN sem sinnir forvarnafræðslu meðal barna og unglinga. VERJAN fer í skóla, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög eða næstum hvert sem er með fræðsluerindi! 
  Hægt er að panta fræðsluerindin á verjan@verjan.is eða á heimasíðuna www.verjan.is

   

  Til baka...